Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 193/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 193/2016

Miðvikudaginn 2. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 23. maí 2016 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. maí 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Rökstuðningur með kæru barst 31. ágúst 2016.

Með bréfi 2. september 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. september 2016. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. september 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1982. Hann býr ásamt eiginkonu og X börnum að B sem er 148 fermetra parhús. Kærandi á X önnur börn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi hefur ýmist verið atvinnulaus eða [...] og verið með reksturinn í eigin nafni.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 15. maí 2015 eru heildarskuldir kæranda 59.493.279 krónur.

Kærandi kveður greiðsluerfiðleika sína upphaflega stafa af skilnaði hans og fyrrum eiginkonu sinnar fyrir nokkrum árum, en hann hafi þurft að bera verulegan kostnað vegna dómsmáls sem rekið var í tengslum við skilnaðinn. Þá hafi tekjur hans lækkað verulega vegna fæðingarorlofs og atvinnuleysis í kjölfarið.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 16. nóvember 2012, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. ágúst 2013 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi hana úr gildi með úrskurði 12. mars 2015. Málið fór því aftur til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara og var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar 15. maí 2015.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 4. desember 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kom fram að samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns fengi kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Með tölvupósti 21. september 2015 hefði kærandi verið beðinn um að staðfesta tekjur sínar og tekið fram að sérstaklega mikilvægt væri að allar tekjur hans lægju fyrir. Kærandi hafi sent umsjónarmanni tölvupóst 27. september 2015 en hafi ekki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns um tekjur sínar. Umsjónarmaður hafi aftur sent kæranda tölvupóst 30. september 2015 þar sem ítrekuð hafi verið beiðni um staðfestingu á tekjum og hann inntur svara við því hvort einu tekjur hans væru atvinnuleysisbætur. Með tölvupósti 2. október 2015 hafi kærandi staðfest að upplýsingar umsjónarmanns um tekjur hans væru réttar. Aðspurður um hvort tekjur hans kynnu að breytast á næstu vikum hafi kærandi greint frá því að ekkert væri fast í hendi varðandi það en hann gæti mögulega fengið starf við [...] eftir áramót. Umsjónarmaður hafi sent kæranda drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun til yfirlestrar 6. nóvember 2015. Kærandi hafi verið beðinn um að fara yfir efni frumvarpsins og koma með athugasemdir ef við ætti. Með tölvupósti 12. nóvember 2015 hafi kærandi samþykkt efni frumvarpsins að því er tekjur hans varðaði.

Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hafi að svo búnu verið sent kröfuhöfum. Landsbankinn hf. hafi mótmælt frumvarpinu þar sem hann teldi tekjur kæranda mun hærri en þar kæmi fram. Bankinn hafi talið að kærandi hefði ekki gefið réttar upplýsingar um tekjur sínar og því til staðfestingar hafi bankinn lagt fram yfirlit yfir bankareikning kæranda. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 25. nóvember 2015 þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á misræmi tekna, annars vegar á grundvelli þeirra upplýsinga sem kærandi gaf sjálfur og hins vegar á grundvelli innborgana á bankareikning hans. Kærandi hafi þá óskað eftir fresti til að leggja fram gögn frá endurskoðanda. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir hafi kærandi greint frá því að greiðslur inn á bankareikning hans væru kostnaðargreiðslur og kæmu gjöld á móti tekjunum. Þetta yrði ekki bókfært fyrr en á næsta ári. Þegar kærandi hafi verið beðinn um skýringar á þessum kostnaðargreiðslum hafi hann skýrt frá því að hann hefði tekið að sér verkefni í verktöku og væri ekki lengur á atvinnuleysisbótum.

Að mati umsjónarmanns leiki vafi á því hvort kærandi hafi gefið réttar upplýsingar um tekjur sínar við vinnslu málsins. Þannig leiki vafi á því hvort kærandi hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu og hvort umsókn hans hefði átt að synja í upphafi, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Upplýsingar um þær tekjur kæranda, sem ekki séu taldar fram á staðgreiðsluskrá svo og upplýsingar um verktakastarfsemi, verði að telja þess eðlis að það sé einungis á færi kæranda að veita þær. Þrátt fyrir að kærandi hafi að einhverju leyti veitt skýringar á millifærslum á bankareikningi sínum verði enn að telja fjárhag hans óljósan, enda hafi kærandi ekki stutt frásögn sína gögnum eða sýnt fram á fyrrgreindar tekjur að öðru leyti. Með vísan til þessa sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 8. og 14. mars 2016 var honum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunar-umleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki öðru sinni ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Svör frá kæranda bárust 19. apríl og 3. maí 2016.

Með bréfi 6. maí 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi svo að honum verði aftur veitt sú réttarstaða að hafa heimild til greiðsluaðlögunar, en kærandi hafi af því veigamikla hagsmuni.

Krafa kæranda er annars vegar byggð á því að umboðsmaður skuldara hafi ekki fylgt ákvæðum lge. þegar ákvörðun var tekin í málinu. Hins vegar er byggt á því að umboðsmaður skuldara hafi ekki fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars 10. gr. er kveði á um rannsóknarskyldu og 12. gr. er kveði á um meðalhófsregluna.

Kæranda hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 15. maí 2015. Einn kröfuhafa hafi talið að kærandi hefði hærri tekjur en hann gæfi upp. Þegar umsjónarmaður hafi spurt kæranda að því hvort tekjurnar væru réttar, þ.e. hvort hann þægi atvinnuleysisbætur, þá hafi kærandi staðfest að svo væri. Er hann hafi verið spurður að því hvort tekjur hans kynnu að breytast á næstu vikum hafi kærandi svarað eftir bestu vitund að ekkert væri fast í hendi varðandi það og greint frá því að hann gæti hugsanlega fengið atvinnu eftir áramót við [...].

Þær skýringar séu að baki greiðslum til kæranda að hann hafi tekið að sér [...] í verktöku. Kærandi hafi þurft að taka á sig verulegan kostnað og útgjöld þar sem hann var að hefja störf í greininni. Þetta komi fram á framlögðum rekstrarreikningi vegna ársins 2015. Á reikningnum komi fram að seldar vörur og þjónusta hafi numið 1.269.820 krónum, laun og launatengd gjöld 121.980 krónum og annar rekstrarkostnaður 1.255.893 krónum. Tapið hafi því verið 108.053 krónur. Allar tekjur kæranda af [...] hafi samkvæmt því farið í kostnað og því hafi hann ekkert haft af þeim tekjum til ráðstöfunar.

Sé fyrrnefndur rekstrarreikningur skoðaður sjáist að fjárhæðir samkvæmt honum séu raunhæfar og ekki hægt að rengja þær. Þó að velta hafi komið fram á tilgreindum bankareikningi kæranda hafi ekki verið um launatekjur að ræða heldur rekstrartekjur sem jafnast hafi út með rekstrargjöldum.

Að mati kæranda verði að teljast óásættanlegt að umboðsmaður skuldara geti tekið ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar á þeim grundvelli einum að tekjur og gjöld hafi farið um bankareikning hans. Hefði kærandi í raun og veru fengið launatekjur og hagnast af rekstrinum hefði hann að sjálfsögðu tilgreint þær tekjur. Ekkert sé fast í hendi með framtíðartekjur kæranda af [...].

Umsjónarmaður fullyrði í bréfi sínu til umboðsmanns skuldara 4. desember 2015 að það sé mat hans að vafi leiki á um það hvort kærandi hafi með ráðnum hug eða grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Þessu mótmælir kærandi sem hafi verið í góðri trú um að hann væri að veita réttar upplýsingar um tekjur sínar, enda hafi hann aldrei ætlað að leyna neinu. Samkvæmt því sem rakið hafi verið telji kærandi að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 5. gr. lge., en samkvæmt ákvæðinu hvíli á stjórnvaldi sú skylda að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun í því sé tekin. Af framangreindu sé ljóst að á stjórnvaldi hvíli skylda til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Umboðsmaður hefði því átt að rannsaka til hlítar hverjar raunverulegar aðstæður kæranda væru og hver væri huglæg afstaða hans þegar hann var inntur eftir upplýsingum um tekjur sínar. Kærandi telji að bæði umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara hafi gengið heldur harkalega fram gegn honum með því að fullyrða að hann hafi viljandi og af ásetningi gefið rangar upplýsingar.

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga séu lög sem veiti borgurunum ákveðin jákvæð réttindi að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Við hefðbundna lögskýringu beri að túlka rúmt þau réttindi sem þar sé kveðið á um. Væri verið tálma borgurunum um hin jákvæðu réttindi og þau skilyrði sett fram sem þyrftu að vera til staðar í því skyni að neita borgurunum um þessi réttindi, bæri að túlka slík ákvæði þröngt.

Í 1. mgr. 1. gr. lge. sé kveðið á um að markmið laganna sé að gera einstaklingum sem séu í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í þessu samhengi megi einnig vísa til almennra athugasemda með frumvarpi til lge. þar sem segi: „Greiðsluaðlögun er að þessu leyti ólík gjaldþrotaskiptum sem eru fyrst og fremst sameiginleg fullnustugerð allra lánardrottna, enda starfar skiptastjóri í raun í umboði lánardrottna og honum ber sem slíkum að gæta hagsmuna þeirra í störfum sínum við uppgjör búsins. Við skuldauppgjör samkvæmt þessu frumvarpi eru hagsmunir skuldara hins vegar hafðir að leiðarljósi. Með frumvarpinu er ætlunin að festa í lög sértækar reglur, m.a. að norskri fyrirmynd (lov, av 17. juli 1992 nr. 99, om frivillig og tvungen gjeldsordning for privatpersoner (gjeldordningsloven)), sem er ætlað að ná því markmiði að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum. Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.“

Með því að setja kæranda svo þröng skilyrði um hvað sé miðað við varðandi upplýsingaskyldu og skilning kæranda á því hvað teljist honum til tekna, sé ljóst að hagsmunir kæranda séu ekki hafðir að leiðarljósi. Sama megi segja um það markmið lge. að gera einstaklingum auðveldara og hagfelldara að fara í greiðsluaðlögun heldur en að óska gjaldþrotaskipta.

Þegar allt framanritað sé virt sé það ljóst að túlka beri ákvæði 15. gr. lge. þröngt og að mikið þurfi að koma til svo að ákvæðið eigi við. Það sé því mat kæranda að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðinu og því sé ekki ástæða til að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir hans.

Kærandi bendir einnig á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram komi að stjórnvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þegar umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé óhætt að fullyrða að hann hafi ekki beitt vægasta úrræðinu heldur því grófasta. Umboðsmaður hefði heldur átt að leitast við að leysa vanda kæranda og bjóða honum til viðtals þar sem mögulega væri hægt að leggja fram nýja umsókn til greiðsluaðlögunar og halda honum í greiðsluskjóli þar til endanleg lausn væri fundin á fjárhagsvanda hans.

Auk fyrrnefndra lagaákvæða vísar kærandi til Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 3. og 8. gr., og til 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1994.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Kæranda var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 15. maí 2015. Þá hafi ekki legið fyrir að aðstæður kæranda væru með þeim hætti að b- og d-liðir 1. mgr. 6. gr. lge. ættu við. Í greinargerð með frumvarpi til lge. segi í skýringum með 15. gr. að ef á tíma greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem umsjónarmaður telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt skuli hann tilkynna það umboðsmanni skuldara. Hér sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla laganna.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Samkvæmt reikningsyfirliti frá Landsbankanum hf. nemi óútskýrðar færslur á tímabilinu janúar til apríl 2015 alls 1.525.087 krónum. Þegar umsjónarmaður óskaði skýringa frá kæranda á þessum færslum hafi komið fram að hann hefði fengið 800.000 krónur í endurgreiðslu vegna ólögmæts gengisláns í mars 2015. Kærandi hafi ekki veitt upplýsingar um þessa greiðslu þegar umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var til meðferðar hjá umboðsmanni. Samkvæmt 4. gr. lge. hefði verið nauðsynlegt að slíkar upplýsingar lægju fyrir áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt þannig að hægt hefði verið að leggja efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt hefði verið að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Óútskýrðar millifærslur á bankareikningi kæranda nemi 2.137.938 krónum á tímabili greiðsluskjóls. Ekki liggi fyrir aðrar skýringar á millifærslunum en að kærandi hafi starfað sem [...]. Kærandi hafi lagt fram yfirlit yfir reksturinn með yfirskriftinni ársreikningur. Þær fjárhæðir sem fram komi í rekstraryfirliti samræmist á engan hátt fyrrnefndu reikningsyfirliti frá Landsbankanum hf. og veiti engar skýringar á þeim millifærslum sem um ræði. Í skattframtali kæranda vegna ársins 2015 séu ekki upplýsingar um rekstur í eigin nafni í samræmi við framlagt rekstraryfirlit kæranda.

Eigi umsjónarmaður að geta gert raunhæfa tillögu að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann upplýsi um allt það sem sé mikilsvert í málinu og áhrif hafi á fjárhagsstöðu hans, sbr. 4. gr. lge. Nauðsynlegt sé að fyrir liggi hvaða tekjur skuldari hafi til að greiða af skuldum sínum og beri honum að upplýsa umsjónarmann um þær. Í ljósi þess sem rakið hafi verið verði að telja fjárhag kæranda óljósan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., enda liggi hvorki fyrir hverjar séu heildartekjur hans né hvers eðlis fyrrnefndar innborganir á bankareikning hans séu.

Að því er varði upplýsingagjöf kæranda, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge., hafi umsjónarmaður óskað eftir nákvæmum upplýsingum um tekjur kæranda. Miðað við þær upplýsingar, sem síðar hafi borist frá kæranda um verktöku hans og það rekstraryfirlit sem hann hafi lagt fram, verði að telja að kæranda hafi verið ljóst að þær upplýsingar um tekjur hans sem lágu fyrir í málinu væru ekki réttar. Þessar upplýsingar hafi verið mikilsverðar í málinu í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hafi ekki útskýrt hvers vegna hann gaf ekki umsjónarmanni fullnægjandi upplýsingar um tekjur, þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Umboðsmaður skuldara telji því að háttsemi kæranda falli undir ákvæði d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu hafi greiðsluaðlögunarheimildir kæranda verið felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Að mati kæranda hefur umboðsmaður skuldara ekki fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að því er varðar rannsóknarskyldu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr.

Varðandi rannsóknarreglu telur kærandi að umboðsmaður skuldara hafi brotið þá reglu með því að láta hjá líða að rannsaka til hlítar hverjar raunverulegar aðstæður kæranda hafi verið svo og hver huglæg afstaða hans væri þegar hann var inntur eftir upplýsingum um tekjur sínar.

Um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál er að mælt fyrir um í 5. gr. lge. Styðst ákvæðið við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í rannsóknarreglunni felst þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga, en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn megin þáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslugetu viðkomandi skuldara en greiðslugetan byggist meðal annars á tekjum hans. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé það þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Samkvæmt þessu var það í verkahring kæranda að afla þeirra gagna sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir við vinnslu málsins. Hlutverk umboðsmanns skuldara að þessu leyti er samkvæmt lge. að leggja mat á þau gögn sem liggja fyrir, meðal annars gögn sem kærandi hefur lagt fram, eftir atvikum að beiðni umboðsmanns.

Í málinu liggur fyrir bréf umboðsmanns skuldara til kæranda 14. mars 2016 þar sem honum var veitt færi á að skýra það misræmi sem verið hafði varðandi þær upplýsingar sem hann gaf um tekjur sínar en eins og málið liggur fyrir var ekki á færi annarra en kæranda að afla þessara gagna. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á þær staðhæfingar kæranda að rannsóknarregla 5. gr. lge., sbr. rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga, hafi verið brotin við málsmeðferð umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að í 12. gr. felist að efni íþyngjandi ákvörðunar sem stjórnvald taki verði að vera til þess fallið að þjóna lögmætu markmiði sem að sé stefnt. Þá feli ákvæðið í sér að sé fleiri úrræða völ, er þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt, skuli velja það úrræði sem vægast sé. Loks byggir ákvæðið á því að hóf verði að vera í beitingu þess úrræðis sem valið sé og megi því ekki ganga lengra en nauðsyn beri til. Stjórnvaldi sé skylt að vega og meta þau andstæðu sjónarmið sem fyrir hendi séu.

Kærandi telur umboðsmann skuldara hafa brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Að hans mati hefði umboðsmaður átt að leitast við að leysa vanda hans og bjóða honum til viðtals þar sem mögulega yrði hægt að leggja fram nýja umsókn til greiðsluaðlögunar og halda honum í greiðsluskjóli þar til endanleg lausn væri fundin á fjárhagsvanda hans. Af gögnum málsins verður ráðið að umboðsmaður skuldara hafi byggt ákvörðun sína á mati á aðstæðum kæranda. Það mat er rökstutt og vísað er um það til ákvæða lge. Ekki er að finna í lge. heimild fyrir þeirri málsmeðferð sem kærandi telur að viðhafa hefði átt í málinu. Að þessu virtu verður því ekki fallist á það með kæranda að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi verið í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr. laganna.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunar-umleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem óljóst sé hvaða tekjur kærandi hafi haft á árinu 2015.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðslu-aðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt skattframtali ársins 2016 vegna tekna ársins 2015 voru tekjur kæranda á því ári atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 1.139.520 krónur, meðlag og umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun samtals að fjárhæð 932.832 krónur og verktakagreiðsla frá C að fjárhæð 45.579 krónur. Ekki er getið um reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri. Af yfirliti yfir bankareikning kæranda fyrir tímabilið janúar til nóvember 2015 má sjá að kærandi fékk greiðslur frá átta einstaklingum á tímabilinu í 31 skipti en þær námu samtals 2.798.811 krónum. Tveir einstaklingar greiddu stærstan hluta fjárhæðarinnar, annar 800.000 krónur en hinn 1.580.140 krónur. Kærandi kveður greiðslur þessar vegna [...] sem hann hafi stundað í eigin nafni. Vilji hans hafi ekki staðið til að leyna þessum greiðslum en fyrir mistök hafi honum láðst að greina umsjónarmanni frá þeim. Kærandi hefur lagt fram skjöl með fyrirsögnunum „rekstrarreikningur“, „efnahagsreikningur“ og „sundurliðun með ársreikningi“ sem hann kveður skýra fyrrnefndar greiðslur á reikninginn. Samkvæmt skjölunum voru rekstrartekjur kæranda af eigin atvinnurekstri 1.269.820 krónur árið 2015 og launagreiðsla til hans 121.980 krónur. Þannig er ekki samræmi á milli þeirra innborgana á reikning kæranda sem hann segir vegna eigin atvinnureksturs og þeirra rekstrartekna sem fram koma á skjölunum.

Umsjónarmaður og kærandi áttu í tölvupóstsamskiptum vegna tekna kæranda. Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 30. september 2015 segir meðal annars: „Eru upplýsingar um tekjur réttar? Færðu greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun ennþá? Eru það einu tekjur þínar?“ Í svari kæranda frá 2. október 2015 segir: „Upplýsingar um tekjur eru réttar eins og er.“ Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 5. október 2015 segir meðal annars: „Það er mjög mikilvægt að réttar upplýsingar um tekjur liggi fyrir...Útborgaðar tekjur þínar eru samkvæmt upplýsingum þínum um 278.209 kr., með atvinnuleysisbótum, X meðlagi og umönnunargreiðslum.“ Kærandi svarar sama dag: „Ég gæti mögulega fengið vinnu eftir áramót við [...] en það er ekkert fast í hendi eins og er.“

Samkvæmt framangreindu eru þær upplýsingar sem kærandi hefur veitt um tekjur sínar óljósar og framlögð gögn misvísandi. Af þeim sökum eru ekki fyrir hendi nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að leggja mat á fjárhag kæranda samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að miðað við þær upplýsingar, sem síðar hafi borist frá kæranda, verði að telja að honum hafi verið ljóst að fyrirliggjandi upplýsingar um tekjur hans væru ekki réttar. Því hafi kærandi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Úrskurðarnefndin fellst á þetta mat umboðsmanns skuldara með vísan til þess að kærandi hefur ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um fyrrnefndar innborganir á bankareikning sinn árið 2015 og telur því að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. sömu laga, er samkvæmt framansögðu staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum